Þríleikur um heilsutengdar forvarnir eldri aldurshópa: Grein 1 - Lög og skuldbinding
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (1991/2022) segir m.a. í 1. grein að markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því „að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og [búið við sem mest lífsgæði]“
Í október á síðasta ári ritaði Pálmi Jónsson, lyf- og öldrunarlæknir þrjár greinar í Morgunblaðið, ,,Heilsubrestur á efri árum“, ,,Gagnadrifin öldrunarþjónusta,, og ,,Hin einfalda öldrunarþjónusta“. Greinarnar eru ritaðar af fagmanni á sviði öldrunarfræða sem hefur áratuga reynslu og góða yfirsýn á íslensku heilbrigðiskerfi, ekki síst þess hluta sem snýr að eldri aldurshópum. Tilefni minna greinaskrifa er að bæta við þann þátt sem snýr að heilsu og velferð eldri aldurshópa, þá sérstaklega þess hóps sem enn er í sjálfstæðri búsetu. Þetta er hópur sem heilbrigðiskerfið sinnir að takmörkuðu leyti þegar heilsutengdar forvarnir eru annars vegar. Það er yfirleitt ekki fyrr en vandamál þessa aldurshóps ber á góma að heilbrigðiskerfið tekur við sér, þá oft um seinan.
Vonandi er meginþorri eldri borgara þessa lands mér sammála um að vilja alla jafna dvelja sem lengst í sjálfstæðri búsetu. Einnig er þessi hópur vonandi sammála um að æskilegt væri að seinka notkun á heimaþjónustu og/eða að koma í veg fyrir innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili, óháð því að þar sé notalegt að eldast þegar færnitap og hreyfiskerðing hefur barið á lífsins dyr. Áður en lengra er haldið er rétt er að líta á lög ætluð ríkisstjórn og sveitarfélögum sem lúta að málefnum eldri aldurshópa í sjálfstæðri búsetu.
Í lögum um málefni aldraðra (1999/2022) sem tengjast félags- og vinnumarkaðsráðuneyti segir í 1. grein að „markmið laganna sé að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.“ Við framkvæmd laganna segir jafnframt að „þess skal gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.“
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (1991/2022) segir m.a. í 1. grein að markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því „að veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og [búið við sem mest lífsgæði]“.
Með þessum tveimur lagákvæðum hafa bæði ríki og sveitarfélög skuldbundið sig til að sinna þessum aldurshópi meðan hann er í sjálfstæðri búsetu þannig að eldri einstaklingar á landinu geti búið í heimahúsum sem lengst. Hér vantar mikið upp á, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, til að koma til móts við þessi markmið með markvissum aðgerðum sem snúa að heilsutengdum forvörnum. Hvað hafa ríki og sveitarfélög gert til að koma til móts við þessi lagaákvæði og skuldbindingar?
Varðandi skrif Pálma, þá er hann sérstaklega að rýna í heilsueflingu innan heilbrigðiskerfis og stofnana, greina hana og vísa á möguleika til úrlausna. Rétt er að þakka góðar greinar Pálma og segja má að við tveir séum með sitt hvora aðferðafræðina við greiningu á eldri aldurshópum. Hann sem lyf- og öldrunarlæknir einbeitir sér að áhættuskimun fyrir einstaklinga (high risk strategy) og viðbrögð við þeim „sem heilbrigðiskerfið hefur tekið í fóstur“ en ég sem íþrótta- og heilsufræðingur einbeiti mér að heilsutengdum forvörnum og lýðheilsutengdum inngripum sem eiga erindi til almennings (population based strategy), þá sér í lagi þeirra sem eru 60 ára og eldri og enn við ágæta heilsu. Til þarf að verða á landsvísu heilsutengt forvarnarverkefni sem snýr að eldri einstaklingum „sem ekki vilja flýta sér inn á fósturheimili heilbrigðiskerfisins“ en hafa það að markmiði að geta sinnt athöfnum daglegs lífs sem lengst og búið sem lengst í sjálfstærði búsetu.
Milli þessara tveggja aðferða þarf að finna jafnvægi í íslensku heilbrigðiskerfi því báðar eiga þær rétt á sér. Þær eru mismunandi lyklar að bættri lýðheilsu ævina á enda. Eins og Pálmi bendir réttilega á fara gríðarlegir fjármunir í umönnun sjúkra og tiltölulega fárra einstaklinga. Aftur á móti dregur Pálmi ekki nægilega skýrt fram að opna þurfi betur umræðuna um lýðheilsutengd inngrip og koma á skipulögðum verkferlum sem beinast að þeim hópi eldri aldurshópa sem enn býr í sjálfstæðri búsetu og er við þokkalega góða eða mjög góða heilsu.
Það hefur sýnt sig að sú nálgun að sinna á markvissan hátt lýðheilsutengdum inngripum með áherslu á aukna hreyfingu, styrktarþjálfun, bætt mataræði og æskilegan svefn, er bæði einföld og ódýr leið að bættri heilsu almennings, ekki síst þeirra sem elstir eru. Slík nálgun skilar sér síðan í lengri sjálfstæðri búsetu og dregur úr þörf fyrir heimaþjónustu. Þá má fastlega gera ráð fyrir því að innlögnum seinki á dvalar- og hjúkrunarheimili eða að þessi hópur þurfi síður á þeirri þjónustu að halda. Þessi nálgun er ekki einungis hagkvæmari heldur bætir lífsgæði þessa aldurshóps svo um munar.
Heilsupistill.pdf
Ávinningur af lengri sjálfstæðri búsetu eldri aldurshópa er gríðarlega mikill fyrir sveitarfélög og fjárhagslegur ávinningur ríkisins er ekki síður mikill ef marka má KPMG kostnaðar- og ábatagreiningu sem gerð var fyrir félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra og birt á þessu ári (2023). Greiningin gaf algjörlega nýja sýn á opinber fjárhagsgögn ríkis og sveitarfélaga og það svigrúm að styðja betur við lýðheilsu elstu samfélagsþegnanna.
Helstu niðurstöður eru þessar:
Tekjur eldra fólks hafa vaxið hraðar en þeirra sem yngri eru síðustu 25 ár.
o Hvað fær eldra fólk í sjálfstærði búsetu af þessum ávinningi til baka?
Útsvarsgreiðslur eldra fólks hafa fimmfaldast frá árinu 2006.
o Hvað hafa sveitarfélögin lagt til í heilsutengdar forvarnir eldra fólks í sjálfstæðri búsetu síðustu 15 ár?
o Hvaða verkferla ætla sveitarfélög að nota til að efla sjálfstæða búsetu eldri aldurshópa?
Ábati samfélagsins hefur aukist samhliða auknum tekjum eldra fólks.
o Hvað hefur hátt hlutfall af 12 milljarða umframtekjum sveitarfélaga gegnum útsvarstekjur árið 2021 skilað sér til eldra fólks?
o Hve mikið af því hefur runnið til heilsutengdra forvarna?
Skattatekjur ríkisins af eldra fólki (67+) hafa nær sexfaldast síðustu 15 ár.
o Hvað hefur ríkið lagt af mörkum til heilsutengdra forvarna (utan ríkisrekinna stofnana) síðustu 15 ár?
Heilsa er helsta forspárgildi um lífshamingju og lífsgæði. Til að geta mætt þörfum almennings, ekki síst þeirra eldri sem búa enn í heimahúsum og vilja gera það áfram, þarf að eiga sér stað grundvallarviðhorfsbreyting ráðandi afla ríkis og sveitarfélaga þar sem heilbrigð öldrun eykur samfélagslegan ábata. Eldra fólk leggur mun meira til samfélagsins en áður og því þarf að halda á lofti samhliða raunverulegum aðgerðum. Þannig á að framfylgja lögunum