Hægt að snúa vöðvarýrnun við
„Það gerist í kringum fertugt að vöðvamassinn fer að rýrna,“ segir Janus.
Janus Guðlaugsson, doktor í íþrótta- og heilsufræðum, sem starfrækir fyrirtækið Janus heilsuefling sem þjónustar eldri borgara í sjö sveitarfélögum, segir að hægt sé að snúa hægfara vöðvarýrnun aldraðra, sem fjallað var um í Fréttablaðinu í gær, til betri vegar.
„Það gerist í kringum fertugt að vöðvamassinn fer að rýrna,“ segir Janus.
„Þegar á efri árum, um og yfir sextugt, getur skapast margvíslegur heilsufarsvandi. Heilbrigðiskerfinu í dag hættir því miður til að taka í fóstur langvarandi sjúkdóma í stað þess að bregðast við þeim með heilsutengdum forvörnum. Með markvissum forvörnum, meðal annars styrktarþjálfun og fræðslu, má koma í veg fyrir ótímabæra vöðvarýrnun. Slíkt getur hægt á för eldri borgara inn á hjúkrunarheimilin en um leið lengt sjálfstæða búsetu. Ávinningurinn verður bætt heilsa hinna eldri og minni kostnaður fyrir ríki og sveitarfélög.“
Janus segir að með markvissri styrktarþjálfun og réttri próteinríkri næringu megi snúa þessu ferli til betri vegar. „Við erum að sjá þetta gerast í okkar heilsutengda verkefni, að vöðvamassinn eykst og vöðvastyrkurinn einnig. Samhliða þessu og bættri hreyfigetu sjáum við hjá okkar þátttakendum lífsgæðin vera að aukast þrátt fyrir hækkandi aldur.
Próteinríka næringin og markvissa styrktarþjálfunin er lykill að því að vinna það til baka sem tapast hefur,“ segir Janus.
https://www.frettabladid.is/frettir/haegt-ad-snua-vodvaryrnun-vid/